Yfirfarið 11. nóvember 2018

Nafn og tilgangur

1. grein

Félagið heitir Nemendafélag Verzlunarskóla Íslands, skammstafað N.F.V.Í. Heimili þess er Ofanleiti 1. Varnarþing þess er í Reykjavík.

2. grein

Félagar eru allir nemendur Verzlunarskóla Íslands og eru þeir skyldugir til að greiða ársgjald til félagsins, en það ákvarðar Forseti í samráði við Féhirði og skólastjóra. Þeir nemendur sem ekki vilja vera í N.F.V.Í. geta sótt um endurgreiðslu ársgjaldsins til Stjórnar nemendafélagsins. Félagsgjöld eru innheimt um leið og skólagjöld.

3. grein

Hlutverk N.F.V.Í. er að efla félagsþrxoska nemenda, tengsl þeirra innbyrðis, kynni þeirra við aðra skóla og gæta hagsmuna þeirra innan skólans.

Stjórnskipan

1. grein

Stjórn N.F.V.Í. skal skipuð tíu einstaklingum. Stjórnina skipa Forseti, Féhirðir, Markaðsstjóri, Formaður Málfundafélags, Ritstjóri Verzlunarskólablaðsins, Formaður Nemendamótsnefndar, Ritstjóri Viljans, Formaður Íþróttafélags, Formaður Listafélags og Formaður Skemmtinefndar. Stjórn N.F.V.Í. hefur æðsta vald í málefnum félagsins.

2. grein

Formönnum nefnda er heimilt að víkja nefndarmönnum úr nefnd sinni, ef rík ástæða þykir til, þó ekki nema með samþykki Forseta og meirihluta nefndarinnar.

3. grein

Hverri nefnd er heimilt að taka inn í nefndina tvo eða þrjá aðila, þó með samþykki Forseta og meirihluta nefndarinnar.

4. grein

 1. Ef Stjórnarmaður lætur af störfum eða fellur frá, skal sitjandi Stjórn skipa arftaka hans. Skal sá aðili sitja sem löglegur Stjórnarmaður til næsta aðalfundar. Forseti N.F.V.Í. situr sem oddamaður Stjórnar ef kemur til atkvæðagreiðslu 9-manna Stjórnar og sem slíkur hefur hann oddaatkvæði. Ef Forseti lætur af störfum eða fellur frá skal Féhirðir sitja sem oddamaður Stjórnar og sem slíkur hafa oddaatkvæði.
 2. Ef Forseti eða Féhirðir fara frá störfum tímabundið tekur hinn aðilinn við á meðan.

5. grein

Allir Stjórnarmenn N.F.V.Í. ásamt ritara Stjórnar skulu fá einn boðsmiða á allar skemmtanir nemendafélagsins og skal Féhirðir hafa yfirumsjón með útdeilingu boðsmiða.

6. grein

Stjórn N.F.V.Í. skal sjá til þess að þrifnaði og hreinlætis sé gætt í nemendakjallaranum.

Merki

1. grein

 1. Merki N.F.V.Í. skal vera merki Verzlunarskóla Íslands með skammstöfunina N.F.V.Í. hringritaða í fjarvídd utan um.
 2. Merkið skal vera tákn N.F.V.Í. og vera notað sem slíkt hvenær sem kostur gefst á því.
 3. Öll meðferð og notkun á merki N.F.V.Í sem rýrir traust félagsins eða vanvirðir er með öllu óheimil.

Kosningar

1. grein

 1. Kosning í Stjórn og nefndir N.F.V.Í. skal fara fram daginn fyrir aðalfund og samdægurs honum.
 2. Allir félagar í N.F.V.Í. hafa kosningarétt.

2. grein

 1. Kosning skal vera leynileg og á kjörklefinn að vera opinn frá klukkan 09:30 til 14:30 báða kjördagana.
 2. Frambjóðendur skulu kvöldi áður en kjörfundur hefst hafa lokið við að fjarlægja allar auglýsingar og annan kosningaáróður.
 3. Verði frambjóðandi uppvís að broti á b-lið 2. greinar kosningalaga skal hann áminntur opinberlega af kjörnefnd. Verði frambjóðandi uppvís að endurteknum brotum á b-lið 2. greinar kosningalaga missir hann atkvæðisrétt og kjörgengi það árið.

3. grein

 1. Nemandi hefur kosningarétt utan kjörfundar ef hann er í ferð eða öðrum erindagjörðum á vegum skólans á þeim tíma sem kosningar eru.
 2. Nemenda er aðeins kleift að kjósa á ákveðnu tímabili sem að kjörnefnd ákveður og er framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu alfarið í höndum kjörnefndar.
 3. Til að auðvelda fyrir verður Kox-Viljinn birtur inn á nemendafélagssíðunni á rafrænu formi til að allir geti nálgast hann.

4. grein

 1. Verksvið kjörnefndar er að sjá um kosningar í allar nefndir N.F.V.Í. og undirbúning þeirra. Að öðru leyti vísast til laga um aðalfund.
 2. Í kjörnefnd sitja sex aðilar. Þeir eru: Forseti, sem jafnframt er oddamaður nefndarinnar, Formaður M.F.V.Í., Hagsmunaráð og tveir fulltrúar sem Stjórn skipar.
 3. Kjörnefnd getur skipað allt að 20 aðila til þess að aðstoða sig við talningu atkvæða. Viðkomandi aðilar mega þó ekki vera í framboði til Stjórnar né nefnda N.F.V.Í.
 4. Fari Hagsmunaráðsfulltrúi í framboð skal hann afsala sér sæti sínu í kjörnefnd og Stjórn skipi annan í hans stað.
 5. Aðilar í kjörnefnd og aðstoðarfólk kjörnefndar mega ekki hafa lýst yfir opinberum stuðningi við frambjóðendur.

5. grein

 1. Frambjóðendur skulu eigi síður en 15 dögum fyrir auglýstan aðalfund skila til kjörnefndar framboði og undirskriftum nemenda meðmælta framboðinu. Ef viðkomandi er að bjóða sig fram til Forseta eða Féhirðis, skal frambjóðandi skila inn 130 undirskriftum, þó ekki fleiri en 170. Fyrir framboð til annara Stjórnarembætta skulu frambjóðendur skila inn 100 undirskriftum, þó ekki fleiri en 130. Kjörnefnd skal síðan birta skrá yfir frambjóðendur og meðmælalista hið minnsta fimm dögum fyrir aðalfund.
 2. Hverjum félagsmanni N.F.V.Í. er einungis heimilt að undirrita meðmælalista eins einstaklings í hvert Stjórnarembætti. Verði félagsmaður uppvís að brotum á þessari grein missir hann atkvæðisrétt.

6. grein

 1. Öllum félögum í 3., 4. og 5. bekk er heimilt að bjóða sig fram í öll embætti, ef þeir fullnægja settum skilyrðum. Í Stjórnarembætti og embætti fulltrúa nemenda í hagsmunaráði skulu frambjóðendur vera í 5. bekk þegar kosningar fara fram.
 2. Komi aðeins einn frambjóðandi í embætti Forseta og Féhirðis þarf yfir 3/4 greiddra atkvæða til að hann hljóti kosningu. Nái frambjóðandi til þessara embætta ekki tilskyldum fjölda atkvæða skal boða til nýrra kosninga til viðkomandi embættis innan 7 skóladaga eftir aðalfund og skal kjörnefnd sjá um framkvæmd þeirra.
 3. Komi aðeins einn frambjóðandi fram í önnur Stjórnarembætti, þarf yfir 2/3 greiddra atkvæða til að hann hljóti kosningu. Nái frambjóðandi ekki tilskyldum fjölda greiddra atkvæða skal nýkjörin Stjórn í samráði við viðkomandi nefnd, skipa nýjan aðila í embættið.
 4. Séu fleiri en einn aðili í framboði til sama embættis, þarf sigurvegarinn yfir 1/3 greiddra atkvæða til að hljóta kosningu. Ef það næst ekki skal kosið aftur milli tveggja efstu manna innan 7 skóladaga eftir aðalfund og skal kjörnefnd sjá um framkvæmd kosninganna.

7. grein

Hverjum nemenda er einungis heimilt að bjóða sig fram í eina nefnd. Þó getur nemandi fengið undanþágu hjá Forseta til að sitja í annarri nefnd.

8. grein

Nemandi sem hlýtur kosningu í Stjórnarembætti skal komast upp um bekk að vori til að halda embætti, ef hann fellur, skal Stjórn skipa annan í hans stað skv. 4. grein í lögum um stjórnskipan.

Vantraust á embættismenn

1. grein

Allir félagar N.F.V.Í. hafa rétt til að bera fram vantrauststillögu á meðlimi Stjórnar.

2. grein

Flutningsmaður vantrauststillögu skal leggja fram undirskriftir minnst 200 félaga í N.F.V.Í. og skal þá fara fram leynileg atkvæðagreiðsla um vantraustið í umsjá hagsmunaráðs. Vantraust skoðast samþykkt ef vantrauststillagan fær 2/3 hluta greiddra atkvæða. Hagsmunaráð skal ganga úr skugga um lögmæti undirskrifta og vera framkvæmdaraðili við brottreksturinn.

Aðalfundur

1. grein

Einungis löglegir félagsmenn N.F.V.Í. hafa tillögurétt og atkvæðisrétt á aðalfundi félagsins.

2. grein

Ársskýrslur allra nefnda innan N.F.V.Í. skulu liggja frammi á aðalfundi.

3. grein

Dagskrá aðalfundar er sem hér segir:

 1. Kosning fundarstjóra.
 2. Skýrsla fráfarandi Stjórnar.
 3. Endurskoðaðir reikningar félagsins kynntir.
 4. Önnur mál.
 5. Úrslit kosninga.

4. grein

Fráfarandi Forseti skal fyrir hönd fráfarandi Stjórnar fara yfir ársskýrslu félagsins og fráfarandi Féhirðir skal gefa upp stöðu reikninga félagsins.

5. grein

 1. Verði ólæti og frammíköll á fundi má fundarstjóri vísa hlutaðeigandi aðila eða öllum af fundi, gera hlé á fundi eða slíta honum ef svo ber undir.
 2. Tillögur skulu berast munnlega eða skriflega til fundarstjóra, áður en mælendaskrá er lokað. Mælendaskrá skal lokað með ekki minna en 10 mínútna fyrirvara.
 3. Fundarmaður getur borið fram ósjálfstæða tillögu, þ.e.: breytingartillögu, viðaukatillögu, frávísunartillögu eða frestunartillögu, við hvert það mál sem til umræðu er á aðalfundi eða lagabreytingafundi. Slíkar tillögur skulu almennt vera skriflegar. Fundarstjóri ákveður í samræmi við almenn fundarsköp hvaða röð og með hvaða hætti tillögur eru teknar til afgreiðslu. Frávísunartillögur og aðrar dagskrártillögur skal bera upp fyrst. Sé frávísunartillaga samþykkt er málið þar með úr sögunni. Breytingartillaga við aðaltillögu er borin upp á undan aðaltillögunni. Sé breytingartillagan samþykkt er aðaltillagan borin upp þannig breytt. Komi margar breytingartillögur fram er fyrst borin upp sú tillaga sem lengst gengur, þ.e. felur í sér mest frávik frá aðaltillögunni. Verði á engan hátt séð hvor eða hver af breytingartillögunum gengur lengst getur fundarstjóri gripið til þess ráðs að bera tillögurnar upp í þeirri röð sem þær komu fram. Komi fram viðaukatillaga er hún sjálfstæð viðbót við aðaltillöguna og skal bera hana upp á eftir aðaltillögunni. Sé aðaltillagan hins vegar felld er viðaukatillagan einnig úr sögunni, enda eru þá forsendur til afgreiðslu hennar brostnar.
 4. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum ósjálfstæðra tillagna.

6. grein

 1. Til að aðalfundur N.F.V.Í. teljist löglegur þurfa allir Stjórnarmenn að sitja fundinn. Ef Stjórnarmaður getur ekki setið aðalfund sökum forfalla verður hann að skipa fulltrúa á fundinn fyrir sína hönd.
 2. Auk Stjórnarmanna þarf fjöldi löglegra félagsmanna í N.F.V.Í. á fundinn að nema að lágmarki tvöföldum fjölda Stjórnarmanna.

Lagabreytingar

1. grein

Nemendur skulu skila lagabreytingartillögum til Hagsmunaráðs eigi síðar en 3 dögum fyrir auglýstan aðalfund eða aukalegs lagabreytingafundar. Hagsmunaráð skal annast kynningu tilagna sinna til lagabreytinga og annarra tillagna vel fyrir fundinn. Kosið skal um tillögur til lagabreytinga með almennum kosningum á aðalfundi eða aukalegs lagabreytingafundar. Til þess að tillögur til lagabreytinga skoðist samþykktar þarf 2/3 greiddra atkvæða. Lagabreytingar taka tafarlaust gildi.

2. grein

Stjórn N.F.V.Í. er heimilt að kalla til aukalegs lagabreytingafundar ef nauðsyn krefur eða ef 150 félagsmenn krefjast þess skriflega. Sá fundur skal auglýstur með viku fyrirvara og gilda um hann sömu reglur og um aðalfund eftir því sem við á.

3. grein

 1. Til að lagabreytingafundur N.F.V.Í. teljist löglegur þurfa allir Stjórnarmenn að sitja fundinn. Ef Stjórnarmaður getur ekki setið lagabreytingafund sökum forfalla verður hann að skipa fulltrúa á fundinn fyrir sína hönd.
 2. Auk Stjórnarmanna þarf fjöldi löglegra félagsmanna í N.F.V.Í. á fundinum að nema að lágmarki tvöföldum fjölda Stjórnarmanna.

Forseti og Féhirðir

1. grein

Forseti er oddamaður Stjórnar og sér um skipulagningu félagslífsins í heild. Hann er milliliður skólastjórnar og nemenda. Forseti hefur yfirumsjón með öllu er snertir N.F.V.Í.

2. grein

Forseti skal sitja í Hagsmunaráði N.F.V.Í. Hann skal jafnframt sitja í kjörnefnd og vera oddamaður hennar.

3. grein

Forseti skal boða til Stjórnarfundar eigi sjaldnar en tvisvar í mánuði yfir skólatímann og eigi sjaldnar en þrisvar yfir sumarið. Forseti skal vera fundarstjóri á Stjórnarfundum nema hann kveði annan til.

4. grein

 1. Féhirðir skal hafa fjármál félagsins á hendi og úthluta fé til nefnda félagsins, í samráði við viðkomandi nefnd. Féhirðir skal hafa umsjón með fjármálum allra nefnda og klúbba sem starfa innan N.F.V.Í. Féhirðir skal hafa eftirlit með bókhaldi Verzlunarskólablaðsins og Nemendamótsnefndar og sjá um sameiningu þeirra við bókhald N.F.V.Í.
 2. Féhirðir skal hafa eftirlitsskyldu jafnt með lausa- sem og fastafjármunum N.F.V.Í.
 3. Féhirðir skal hafa yfirumsjón með gerð tækjaskrár og skal afrit hennar afhent nýkjörinni Stjórn á aðalfundi, skólastjóra og húsverði.

5. grein

Forseti og Féhirðir skulu í samráði við Hagsmunaráð, ákvarða risnu Stjórnar og skal hún ein njóta þessara réttinda. Aðeins skal úthluta risnu ef fullvíst er talið að staða N.F.V.Í. verði jákvæð eftir árið.

Markaðsstjóri

1. grein

 1. Hlutverk markaðsstjóra er að hafa yfirumsjón með öllu sem tengist auglýsingum innan N.F.V.Í. og vinna með öllum þeim nefndum sem þurfa á hjálp að halda.
 2. Hann skal sjá um að öllum markaðssamningum sem N.F.V.Í. gerir sé framfylgt.
 3. Markaðsstjóri skal vera helsti milliliður við fyrirtæki og passa upp á að ekki verði ágreiningur á milli fyrirtækja um N.F.V.Í.
 4. Markaðsstjóri sér til þess að afsláttum og auglýsingum sé safnað fyrir nemendaskírteinin.

2. grein

Markaðsstjóri skal í samráði við Stjórn N.F.V.Í. skipa þann fjölda einstaklinga í markaðsnefnd sem þörf er á til að sinna markaðsmálum N.F.V.Í.

Miðstjórn

1. grein

Miðstjórn skipa: Stjórn N.F.V.Í., Hagsmunaráð N.F.V.Í., allar nefndir og allir klúbbar sem starfa á vegum N.F.V.Í. og bekkjaráð N.F.V.Í.

2. grein

Hver nefnd skal undantekingalaust skila skýrslu um störf nefndarinnar í lok kjörtímabils og skal sú skýrslu vera tilbúin á aðalfundi N.F.V.Í. ár hvert. Þar skal koma fram hvernig starfseminni var háttað og vinsamlegar ábendingar um hvað betur mætti fara. Ef nefndir sinna ekki þessari skyldu sinni, ber nýkjörinni Stjórn að ávíta þær opinberlega.

2. grein

Formenn allra minni nefnda skulu kynna fjárhagsáætlun fyrir Féhirði og markaðsstjóra í síðasta lagi í ágúst hvers skólaárs.

Málfundafélag

1. grein

Félagið heitir Málfundafélag Verzlunarskóla Íslands. Tilgangur félagsins er að gefa félagsmönnum kost á að æfa sig í ræðumennsku og framsögn. Félagið skal einnig styrkja málefnalega umræðu í skólanum og standa fyrir málfundum.

2. grein

Stjórn félagsins skipa Formaður og fjórir meðstjórnendur. Þeir skulu kosnir samkvæmt undirkaflanum um kosningar.

3. grein

 1. F.V.Í. skal hafa yfirumsjón með innanskóla mælsku- og rökræðukeppni, BEKEVÍ. Keppnin skal haldin einu sinni á vetri.
 2. F.V.Í. skal hafa yfirumsjón með innanskóla spurningakeppni, SPUR. Keppnin skal haldin einu sinni á vetri. Ef þurfa þykir getur M.F.V.Í. fengið 1-2 nemendur til að sjá um framkvæmd keppninnar.
 3. F.V.Í. skal hafa yfirumsjón með MORFÍs og Gettu Betur fyrir hönd Verzlunarskólans.
 4. F.V.Í. skal hafa yfirumsjón með mælsku og rökræðukeppni milli félagsmanna N.F.V.Í., Mælskasti maður skólans. Keppnin skal haldin einu sinni á vetri.

4. grein

M.F.V.Í. skal hafa umsjón með aðalfundi N.F.V.Í. og skóla- og félagsmálafundi, í samráði við Forseta.

Listafélag

1. grein

Félagið heitir Listafélag Verzlunarskóla Íslands. Hlutverk þess er að glæða áhuga nemenda á listum, þroska listgáfur þeirra og fegurðarskyn.

2. grein

Stjórn félagsins skipa Formaður og fjórir meðstjórnendur. Þeir skulu kosnir samkvæmt undirkaflanum um kosningar.

3. grein

 1. Listafélagið stendur fyrir listahátíð minnst einu sinni að vetri.
 2. Listafélagið stendur fyrir stofnun leikhóps sem setur upp leikrit á haustönn.
 3. Listafélagið hefur umsjón með starfi tónlistarklúbbsins Ívarsmanna.

Verzlunarskólablaðið

1. grein

Nafn blaðsins er Verzlunarskólablaðið. Hlutverk blaðsins er að draga upp mynd af skólalífinu og þeim anda sem í skólanum ríkir hverju sinni, að kynna þau mál sem efst eru á baugi í skólanum hverju sinni og að efla tengsl við fyrrverandi nemendur skólans.

2. grein

Ritstjórn blaðsins skipa Ritstjóri og fjórir meðstjórnendur. Þeir skulu kosnir samkvæmt lögum um kosningar.

3. grein

 1. Ritstjóri er oddamaður ritstjórnar og hefur yfirumsjón með störfum hennar. Hann er ábyrgðarmaður blaðsins og hefur úrskurðavald um málefni þess.
 2. Ritstjóri skipar gjaldkera í upphafi starfsárs í samráði við Féhirði. Sé gjaldkeri utan ritstjórnar tekur hann sæti í henni. Gjaldkeri sér um fjármál blaðsins og skal hann í einu og öllu hlíta lögum um bókhald og endurskoðun þess.
 3. F.V.Í. ábyrgist fjárhagsskuldbindingar blaðsins.

4. grein

Ritnefnd Verzlunarskólablaðsins skal í upphafi skólaárs sjá til þess að SNOBBIÐ, dagbók Verzlunarskólanema komi út.

Nemendamótsnefnd

1. grein

Nefndin heitir Nemendamótsnefnd N.F.V.Í. Hlutverk nefndarinnar er að undirbúa og halda nemendamót Verzlunarskóla Íslands.

2. grein

Stjórn nefndarinnar skipa Formaður og fjórir meðstjórnendur sem kosnir eru samkvæmt undirkafla um kosningar.

3. grein

 1. Formaður skipar gjaldkera í upphafi starfsárs í samráði við Féhirði. Sé gjaldkeri utan Nemendamótsnefdnar tekur hann sæti í henni.
 2. Formaður nefndarinnar skal hafa samráð við gjaldkera nefndarinnar um allt það er að fjármálum nemendamótsnefndar lýtur.
 3. Gjaldkeri sér um fjármál Nemendamótsins og skal hann í einu og öllu hlíta undirkafla um bókhald og endurskoðun þess.
 4. Reikningar nefndarinnar skulu lagðir fram á næsta aðalfundi N.F.V.Í. eftir nemendamót. Þegar bókhaldi nemendamótsnefndar er lokið skal fjárhagur þess sameinast fjárhag N.F.V.Í.
 5. Skipa skal ritara sem sér um að halda gerðarbók nefndarinnar.
 6. F.V.Í. ábyrgist fjárhagsskuldbindingar Nemendamótsnefndar.

4. grein

 1. Nemendamótið skal haldið í fyrstu viku febrúarmánaðar ár hvert.
 2. Nefndinni ber að bjóða eftirfarandi aðilum á leiksýningu nemendamótsnefndar: Fastráðnum kennurum, skólanefnd, formanni Verzlunarráðs, fyrrverandi skólastjórum, fyrrverandi nemendamótsnefnd, Stjórn N.F.V.Í.

Íþróttafélag

1. grein

Félagið heitir Íþróttafélag N.F.V.Í. Skal það sjá um íþróttamál innan skólans og standa fyrir íþróttatengdum atburðum á starfsári sínu.

2. grein

Stjórn félagsins skipa Formaður og fjórir meðstjórnendur sem kosnir eru samkvæmt lögum um kosningar.

3. grein

Kjósa skal ritara sem sér um að halda gerðarbók og skal eftirtalið koma fram í henni auk annars sem markvert þykir: Lög þeirra verðlaunagripa fyrir íþróttaafrek sem skólinn á eða kann að eignast. Frásagnir af öllum mótum sem skólinn tekur þátt í, hvort sem um milli- eða innanskólamót er að ræða.

Viljinn

1. grein

Blaðið heitir Viljinn. Hlutverk þess er að fjalla um atburði innan skólans í máli og myndum. Blaðið skal jafnframt lýsa þeim anda sem ríkir innan skólans hverju sinni.

2. grein

Ritstjórn skipa Ritstjóri og fjórir meðstjórnendur. Þeir skulu kosnir samkvæmt lögum um kosningar.

3. grein

 1. Ritstjóri ber ábyrgð á efni blaðsins og skal hann sjá til þess að blaðið komi út á fyrirfram ákveðnum dögum.
 2. Ritstjóri ákvarðar blaðafjölda hvern vetur í samráði við Forseta, Féhirði og ritstjórn.

4. grein

Öllum félögum í N.F.V.Í. er heimilt að rita í blaðið, en þó hefur Ritstjóri heimild til að hafna þeim greinum sem hann sér ekki ástæðu til að birta.

5. grein

Ritnefnd Viljans skal í upphafi skólaárs sjá til þess að Hjálpin, símaskrá Verzlunarskólanema, komi út.

Skemmtinefnd

1. grein

Nefndin heitir Skemmtinefnd N.F.V.Í. Hlutverk hennar er að sjá um söngkeppnina Vælið og nýnemadaginn. Hún skal jafnframt standa fyrir fleiri atburðum sem þykja lyfta félagsanda nemenda.

2. grein

Nefndinar skal skipa Formaður og fjórir meðstjórnendur sem kosnir eru samkvæmt lögum um kosningar.

Hagsmunaráð N.F.V.Í.

1. grein

Ráðið heitir Hagsmunaráð N.F.V.Í. Hlutverk þess er að standa vörð um hagsmuni nemenda skólans og beita sér fyrir umbótum í kennslumálum.

2. grein

Ráðið skipa einn nemandi úr 6. bekk, kosinn í almennum kosningum og skal hann vera oddamaður ráðsins; Forseti og einn nemandi úr 5. bekk, tilnefndur af skólastjóra og Forseta í samráði við Stjórn. Ráðinu er heimilt að taka inn tvo aðila til viðbóta, þó með samþykki meirihluta nefndar auk skólastjóra.

3. grein

 1. Ráðið skal vera tengiliður nemenda og skólayfirvalda og skulu þau leita til ráðsins eftir ályktunum um þau málefni sem nemendur snertir.
 2. Ráðið skal annast endurskoðun allra reikninga félaga N.F.V.Í.
 3. Ráðið skal hafa félagslífið í stöðugri endurskoðun og veita Stjórnarmönnum aðhald. Árlega skal ráðið endurskoða Lagasafn N.F.V.Í. og bera fram tillögur til lagabreytinga eftir því sem ástæða þykir til.
 4. Ráðinu er heimilt að fá menn til hjálpar í einstökum málum og sérmálum eftir því sem þurfa þykir.

4. grein

Ráðið skal sjá um að Lagasafn N.F.V.Í. sé gefið út á hverju ári og skal ráðið sjá til þess að allir félagar N.F.V.Í. eigi kost á að eignast það.

5. grein

Hagsmunaráð hefur aðgang að öllum þeim samningum sem gerðir eru af hálfu Stjórnar fyrir hönd N.F.V.Í. til að tryggja að hagsmunum nemenda sé framfylgt.

Ritari Stjórnar N.F.V.Í.

1. grein

Hlutverk ritara er að sjá um ritun fundargerða á Stjórnarfundum.

2. grein

Ritari Stjórnar er valinn af Stjórn N.F.V.Í. Hlutverk hans er að sjá um ritun fundargerða á Stjórnarfundum. Ritari skal afhenda hverjum Stjórnarmanni fundargerð síðasta Stjórnarfundar í síðasta lagi á næsta Stjórnarfundi.

3. grein

 1. Ritari situr Stjórnarfundi sem hlutlaus aðili, hvorki með tillögurétt né atkvæðarétt.
 2. Ritari skal á aðalfundi skila af sér fundargerðum vetrarins, vandlega frágengnum og tilbúnum til geymslu í skjalasafn N.F.V.Í.
 3. Ritari skal sjá til þess að fundargerðir verði gerðar aðgengilegar nemendum á vefsíðu nemendafélagsins eigi síður en 2 vikum eftir Stjórnarfund og skulu þær vera aðgengilegar þar allt fram til næsta aðalfundar.

Leynifélagið

1. grein

Nafn leynifélagsins er leynilegt sem og öll starfsemi þess.

2. grein

Formaður er skipaður af leynilegum aðila.

3. grein

Allir meðlimir félagsins njóta nafnleyndar í hvívetna.

4. grein

Meðlimir leynifélagsins fá á leynilegum stað frá leynilegum aðilum frímiða á allar skemmtanir sem haldnar eru á vegum nemendafélagsins N.F.V.Í.

Vefnefnd

1. grein

Nefndin heitir Vefnefnd N.F.V.Í. Hlutverk nefndarinnar er að sjá um uppsetningu og rekstur vefsíðunnar nfvi.is.

2. grein

Formaður er valinn af Stjórn N.F.V.Í. og skipar formaður í nefndina eftir því sem þurfa þykir.

3. grein

Formaður ber ábyrgð á vefnum og þeim upplýsingum sem á honum eru.

4. grein

Vefnefnd skal sjá til þess að í upphafi skólaárs verði vefsíðan nfvi.is komin upp.

Skólahljómsveit N.F.V.Í.

1. grein

Nefndin heitir Skólahljómsveit Verzlunarskóla Íslands. Tilgangur hljómsveitarinnar er að virkja nemendur skólans til tónlistarþátttöku. Skal hún standa fyrir tónleikum og vera til taks ef aðrar nefndir óska eftir því.

2. grein

Formaður er skipaður af Stjórn og nefndarmeðlimir svo valdir eftir því sem þurfa þykir.

Videonefnd

1. grein

Nefndin heitir Videonefnd. Hlutverk hennar er að sjá um alla myndbandavinnslu N.F.V.Í.

2. grein

Formaður nefndarinnar skal skipaður af Stjórn N.F.V.Í. Hann skal í samráði við Forseta velja þann fjölda nefndarmanna er þurfa þykir.

3. grein

 1. Formaður hefur umsjón og eftirlitsskyldu með tækjabúnaði Myndbandavinnslunefndar.
 2. Formaður skal hafa á reiðum höndum lista yfir allan þann tækjabúnað er hann hefur í sinni umsjón.

12:00

1. grein

Nefndin heitir 12:00. Hlutverk hennar er að gera frétta- og afþreyingarþáttinn 12:00 í samvinnu við Videonefnd.

2. grein

Formaður nefndarinnar skal vera skipaður af Stjórn N.F.V.Í. Hann skal í samráði við Forseta velja þann fjölda nefndarmanna er þurfa þykir.

3. grein

12:00 skal fá tvo boðsmiða á alla dansleiki N.F.V.Í. og sjá um upptökur.

Baldursbrá

1. grein

Nefndin heitir Baldursbrá. Hlutverk hennar er að standa fyrir tónsmíðakeppninni Demó ár hvert. Þar skulu einungis frumsamin lög taka þátt.

2. grein

Formaður Baldursbrár er valinn af Stjórn N.F.V.Í. Hann skal í samráði við Forseta og Formann Skemmtinefndar velja þann fjölda nefndarmeðlima sem þurfa þykir.

Filman

1. grein

Filman er kvikmyndaklúbbur sem skal vinna markvisst að því að þroska kvikmyndaáhuga nemenda.

2. grein

Filman heldur utan um stuttmyndakeppnina Ljósið á vorönn hvers skólaárs.

Grillnefnd

1. grein

Nefndin hefur það hlutverk að grilla á ýmsum atburðum N.F.V.Í. sé þess óskað.

2. grein

Formaður er valinn af Forseta N.F.V.Í.

3. grein

Ef veður leyfir skal grillnefnd fyrir alla muni bjóða nemendum endurgjaldslaust upp á grillaðar pylsur og svaladrykki daginn eftir öll böll.

Kvasir

1. grein

Blaðið heitir Kvasir. Það er frétta- og afþreyingasnepill N.F.V.Í.

2. grein

Ritstjórn blaðsins skipa ritstjóri, valinn af Stjórn og fjórir meðstjórnendur, valdir af Ritstjóra og Forseta.

3. grein

 1. Ritstjóri ber ábyrgð á efni blaðsins og skal hann sjá til þess að blaðið komi út á fyrirfram ákveðnum dögum.
 2. Ritstjóri skal gefa út 2 tölublöð eða fleiri á önn og ákvarða útgáfudaga hvers vetrar í samráði við Forseta, Féhirði og ritstjórn.

Ljósmyndanefnd

1. grein

Nefndin heitir Ljósmyndanefnd N.F.V.Í. Hlutverk hennar er að sjá um allt ljósmyndaverk innan nemendafélagsins, nema aðila utan skóla sé óskað.

2. grein

Formaður er valinn af Stjórn N.F.V.Í. Hann skal í samráði við Forseta velja þann fjölda nefndarmeðlima sem þurfa þykir.

Embætti Gabríels

1. grein

Gabríel hefur það hlutverk að leika á tilkynningartrompet N.F.V.Í. hvenær sem Forseti félagsins kemur opinberlega fram.

2. grein

Gabríel er valinn af Stjórn N.F.V.Í. Hlutverk Gabríels er ásamt því að tilkynna Forsetann með trompetleik að bera ábyrgð á tilkynningartrompetinu.

Kórnefnd

1. grein

Nefndin heitir kórnefnd N.F.V.Í. Hlutverk hennar er að halda utan um allt sem tengist Verzlunarskólakórnum.

2. grein

Formaður nefndarinnar skal skipaður af Stjórn N.F.V.Í. Hann skal í samráði við Forseta velja þann fjölda nefndarmanna er þurfa þykir.

NFVÍ tíví

1. grein

Nefndin heitir NFVÍ tíví og hlutverk hennar er að mæta á helstu viðburði N.F.V.Í. og skrifa greinar á nfvi.is, vefsíðu félagsins. Nefndin gefur út þætti með reglulegu millibili þar sem hún fer yfir fréttnæmt efni sem hefur átt sér stað í skólanum ásamt öðru afþreyingarefni.

2. grein

Formaður nefndarinnar skal skipaður af Stjórn N.F.V.Í. Hann skal í samráði við Forseta velja þann fjölda nefndarmanna er þurfa þykir.

Rjóminn

1. grein

Nefndin heitir Rjómi N.F.V.Í. Hlutverk hennar er að sjá um afþreyingar- og skemmtiþáttinn Rjómann.

2. grein

Formaður/formenn nefndarinnar skal skipa af Stjórn N.F.V.Í. Hann skal í samráði við Forseta velja þann fjölda nefndarmanna er þurfa þykir.

3. grein

Rjóminn þarf ekki að vera starftækur frá ári til árs en helst þó í lögum N.F.V.Í.

Útvarpsnefnd

1. grein

Nefndin heitir Útvarpsnefnd N.F.V.Í. Hlutverk hennar er að halda útvarpsvikuna á sitthvorri önninni. Einnig sér nefndin um að halda bílabíó.

2. grein

Formaður nefndarinnar skal skipaður af Stjórn N.F.V.Í. Hann skal í samráði við Forseta velja þann fjölda nefndarmanna er þurfa þykir.

Marmarinn

1. grein

Nefndin heitir Marmaranefnd. Hlutverk hennar er að halda viðburði á marmaranum, hafa tónlist á marmaranum og fleira.

2. grein

Formaður nefndarinnar skal skipaður af Stjórn N.F.V.Í. Hann skal í samráði við Forseta velja þann fjölda nefndarmanna er þurfa þykir.

Góðgerðarráð N.F.V.Í.

1. grein

Nefndin heitir Góðgerðarráð Verzlunarskóla Íslands. Hlutverk ráðsins er að standa fyrir alls kyns uppákomum og fjáröflunum þar sem ágoðinn rennur til góðgerðarsamtaka sem ráðið velur á ári hverju.

2. grein

Formaður nefndarinnar skal skipaður af Stjórn N.F.V.Í. Hann skal í samráði við Forseta velja þann fjölda nefndarmanna er þurfa þykir.

Verzló Waves

1. grein

Nefndin heitir Verzló Waves N.F.V.Í. Hlutverk nefndarinnar er að sjá um skipulagningu og framkvæmd Verzló Waves tónlistarhátíðarinnar.

2. grein

Formaður nefndarinnar skal skipaður af Stjórn N.F.V.Í. Hann skal í samráði við Forseta velja þann fjölda nefndarmanna er þurfa þykir.

Markaðsnefnd

1. grein

Nefndin heitir Markaðsnefnd N.F.V.Í. Hlutverk hennar er að hjálpa öðrum nefndum og klúbbum að fjármagna starfsemi sína með því að safna styrkjum og selja auglýsingar.

2. grein

Nefndina skipa Markaðsstjóri og skal hann í samráði við Stjórn N.F.V.Í. velja þann fjölda meðlima er þurfa þykir.

Nördafélagið

1. grein

Nefndin heitir Nördafélag N.F.V.Í. Hlutverk hennar er að halda LAN að minnsta kosti einu sinni á önn.

2. grein

Formaður nefndarinnar skal skipaður af Stjórn N.F.V.Í. Hann skal í samráði við Forseta velja þann fjölda nefndarmanna er þurfa þykir.

Lögsögumenn

1. grein

Lögsögumenn er stuðningsnefnd N.F.V.Í. og heyrir nefndin undir Málfundafélagið. Hlutverk Lögsögumanna er að mæta á viðburði nemendafélagsins, stjórna klappliði þess og semja stuðningslög þegar á þarf að halda sem og hjálpa til í miðasölu. Nefndin skal vera stjórn innan handar við önnur verkefni eftir því sem þurfa þykir.

2. grein

Formaður nefndarinnar skal vera skipaður af Stjórn N.F.V.Í. Hann skal í samráði við Formann Málfundafélags velja þann fjölda nefndarmanna er þurfa þykir.

3. grein

Nefndin skal annarst þrif Verzló-stuðningsmannabolanna.

Klúbbar

1. grein

Tilgangur klúbbanna er að gefa nemendum kost á því að sinna áhugamálum sínum, sem ekki falla undir fasta þætti félagslífsins.

2. grein

Félagsmönnum N.F.V.Í. er heimilt að stofna klúbba í samráði við Forseta og skulu félagar klúbbsins velja sér formann.

3. grein

Óski formaður klúbbs eftir því að vera breytt í nefnd verður klúbburinn að hafa verið virkur í lágmark þrjá vetra að mati Stjórnar og Hagsmunaráðs. Ef klúbburinn uppfyllir þau skilyrði skal kosið um málið á lagabreytingafundi.

Vésteinn

1. grein

Embættið heitir Deildarstjóri hljóðs- og tækjasviðs. Hlutverk þess er að hafa umsjón með allar tækjaeignir N.F.V.Í. og yfirumsjón með allri hljóðuppsetningu á viðburðum félagsins.

2. grein

Stjórn N.F.V.Í. skipar í embættið.

Bókhald félagsins og endurskoðun þess

1. grein

Féhirðir N.F.V.Í. skal halda bókhald N.F.V.Í. og skal það fært eftir almennum bókhaldsvenjum. Féhirðir skal einnig hafa yfirumsjón með sameiningu bókhalds Verzlunarskólablaðsins og Nemendamótsnefndar við bókhald N.F.V.Í. Gjaldkerar Nemendamótsnenfdar og Verzlunarskólablaðsins skulu skila bókhaldi sínu fullkláruðu til Féhirðis í því bóhaldsformi sem Féhirðir óskar í síðasta lagi 10 dögum fyrir aðalfund.

2. grein

Féhirðir skal skila milliuppgjöri í janúar á hverju ári og fullkláruðu bókhaldi fyrir 1. apríl á hverju ári. Féhirðir skal þó gera grein fyrir því á aðalfundi félagsins.

3. grein

Hagsmunaráð skal hafa yfirumsjón með endurskoðun bókhalds N.F.V.Í., Verzlunarskólablaðsins og Nemendamótsnefndar. Hagsmunaráði er heimilt að fá utanaðkomandi aðila bókhaldið til endurskoðunar.

Heiðursskjöl

1. grein

Skjölin heita Heiðursskjöl N.F.V.Í.

2. grein

Tilgangur þeirra er að heiðra þá nemendur í 6. bekk, er skarað hafa fram úr í félagslífi N.F.V.Í. á skólaferli sínum.

3. grein

Stjórn skal tilefna á hverju vori einn til fimm nemendur, sem að þeirra dómi hafa unnið best að málefnum félagsins. Forseta skal falið að afhenda skjölin við skólaslit á hverju vori.

Skjalasafn

1. grein

 1. Forseti ásamt Stjórn N.F.V.Í. skal skipa skjalavörð skjalasafns N.F.V.Í. og skal hann hafa yfirumsjón með skjalasafni N.F.V.Í. og tryggja að allt efni sem gefið er út af N.F.V.Í. sé varðveitt. Þar með allar fundargerðir Stjórnar N.F.V.Í., ársreikningar félagsins og ljósrit samninga.
 2. Skjalavörður halda skal utan um skýrslur nefnda og skulu nefndarskýrslur vera til minnst 5 ár aftur í tímann. Nefndarskýrslur skulu vera aðgengilegar öllum félögum N.F.V.Í.

2. grein

Skjalavörður skal leitast við að safna efni áður útgefnu á vegum N.F.V.Í. Skjalavörður skal einnig beina þeim tilmælum til oganna nefnda og þeirra sem starfa innan félagslífsins að safna og gefa safninu áður útgefið efni.

3. grein

Stjórn skal sjá safninu fyrir geymsluaðstöðu.

Kjarnorkumál N.F.V.Í.

1. grein

N.F.V.Í. skal ávallt vera kjarnorkuvopnalaust nemendafélag.

2. grein

Ákvæði 1. greinar fellur úr gildi ef Menntaskólinn í Reykjavík hefur framleiðslu kjarnorkuvopna og skal N.F.V.Í. boða fyrirvaralaust til kjarnorkuvopnastríðs við Menntaskólann í Reykjavík á VÍ-mr daginn.